L N G H F

Grísakjöt

2018 2019
Kjötframleiðsla (t) 6797 6534
Sala innanlands (t) 6728 6530
Innflutt (t) 1000

Talið er víst að landnámsmenn hafi flutt með sér svín þegar þeir komu til landsins og að svínakjöt hafi verið ein aðalfæða landsmanna í þann tíð, meðal annars vegna mikillar frjósemi dýranna. Benda má á örnefni sem vitna um að svín hafi komið við sögu svo sem Galtafell, Svínafell og Sýrfell. Svín landnámsmanna hafa að öllum líkindum gengið úti með öðrum búpeningi enda landið þá vel gróið fjölbreyttum plöntum og korn ræktað. Þegar kólna tók í veðri, gróður hopaði og kornrækt dróst saman, bitnaði það á svínaræktinni sem lagðist af sem slík í lok 16. aldar. Upp úr miðri 19. öld hófst svínarækt aftur í litlum mæli, meðal annars með það að markmiði að auka fjölbreytni í mat og atvinnulífi. Til ræktunarinnar voru flutt inn svín frá Danmörku og öðrum nágrannalöndum okkar en erfiðlega gekk að treysta undirstöðu greinarinnar, svínabúin voru ekki mörg og lífdýrin fá.

Árið 1932 voru 138 svín á Íslandi en síðan tók þeim að fjölga nokkuð og leituðust þeir sem stunduðu svínarækt við að hirða matarleifar frá veitingastöðum, brauðgerðum og sjúkrahúsum sem fóður fyrir svínin til að spara sér kaup á fóðri. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, féll mikið til af matarleifum frá breska og bandaríska hernum, sem dvaldist hér og fjölgaði svínum töluvert í kjölfarið. Eftir stríð dró aftur úr svínabúskap og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem hann hefur eflst verulega og æ fleiri Íslendingar borða svínakjöt, jafnt hversdags sem til hátíðabrigða. (Svínarækt á Íslandi: Svínaræktarfélag Íslands; kynningarbæklingur.)

Kynbætur á íslenskum svínum

Svínaræktarfélag Íslands var stofnað árið 1976 og hefur frá upphafi haft það að markmiði að vinna að hagsmunamálum svínabænda. Eitt af aðalverkefnum þess hefur verið að fá flutt til landsins erfðaefni til kynbóta með reglubundnum hætti.

Þegar komið var fram á 20. öld hófst markviss ræktun svínastofnsins. Flutt voru inn svín af svokölluðu dönsku landkyni og af breskum kynjum til blöndunar við þann stofn sem fyrir var. Stærsta framfaraskrefið í svínarækt á Íslandi var tekið árið 1994 þegar Svínaræktarfélag Íslands stóð að stofnun einangrunarstöðvar fyrir svín í Hrísey í Eyjafirði. Innflutningur hófst sama ár og var norskum gyltum komið í sóttvarnareinangrun í Hrísey en síðan kynbótagripum dreift þaðan til svínabænda á árunum 1995-1996. Þar með hófust skipulegar kynbætur á íslensku svínunum með nýju erfðaefni sem fólust í því að svínabændur ólu sláturgrísi, sem voru blendingar úr íslensku og norsku svínunum. Þessar markvissu kynbætur hafa skilað gríðarlegum árangri. Vöxturinn er hraðari og kjötgæði hafa aukist. (Svínarækt á Íslandi: Svínaræktarfélag Íslands; kynningarbæklingur).

Frosið sæði flutt inn frá Noregi

Byrjað var að flytja inn frosið sæði frá Noregi árið 2011. Flutt er inn sæði úr þremur stofnum, norskum landrasa, Yorkshire og Duroc til kynbóta á stofnunum. Landrasinn notast sem móðurlína vegna góðrar móðureiginleika og frjósemi. Norski landrasinn er orðinn nokkuð útbreiddur um heiminn. Yorkshire-stofninn hefur góða fóðurnýtingu, vaxtarhraða, frjósemi og móðureiginleika.  Yorkshire hentar því vel bæði sem föður- og móðurlína. Duroc er notaður sem föðurlína vegna mikils vaxtarhraða, beinstyrkleika og kjötgæða en hann hentar ekki sem móðurlína vegna lélegrar frjósemi og móðureiginleika. Á íslenskum búum er stunduð blendingsrækt þar sem gylturnar eru blanda af landrasa og Yorkshire en gölturinn er af Duroc-kyni. Sláturdýrin eru því blanda af kynjunum þrem. Blendingsræktin miðar að því að ná fram góðri frjósemi, góðum vaxtarhraða en jafnframt styrkleika og góðum kjötgæðum hjá svínunum. Í raun er verið að ná fram því besta hjá hverju kyni

Hátt í 30 þúsund tonn af fóðri

Um 80 þúsund svínum er slátrað árlega en um 35 þúsund svín eru til í svínahúsum landsins, (grísir, gyltur og geltir). Fóður svína samanstendur af hveiti, byggi, sojamjöli, fiskmjöli, fitu, olíu og vítamínblöndu. Notkun korns til fóðurs búfjár var alls 68.000 tonn á árinu 2008. Um 53.000 tonn voru flutt inn það ár, eða um 80% heildarnotkunar. Mest var flutt inn af maís og hveiti.

Í febrúar 2009 kom út á vegum SLR skýrslan „Kornrækt á Íslandi – tækifæri til framtíðar“, unnin af Intellecta ehf. Þrátt fyrir bjarta mynd sem dregin er upp af kornrækt á Íslandi er ekki gert ráð fyrir aukinni hlutdeild byggs í fóðri svína í skýrslunni. Það er hins vegar álit nefndarinnar að hægt sé að stórefla hlutdeild byggs og þar með íslensks korns í fóðri svína. Í mörgum löndum er löng hefð fyrir því að bygg sé megin uppistaðan í fóðri svína. Bygg er fyrst og fremst góður orku- eða kolvetnagjafi. Próteininnihald er hins vegar býsna breytilegt og gæði þess eru lítil þ.e. óhagstæð amínósýru samsetning og sérstaklega lágt í nauðsynlegum amínósýrum eins og lysine. Steinefna- og vítamíninnihald er einnig í litlum takti við þarfir dýranna. Tæplega 80% af fóðri svína eða um 21.000 tonn er korn sem skiptist nokkuð jafnt milli hveitis og byggs. Áætlað er að innlent bygg notað í svínafóður í dag sé um 1000-2000 tonn. Þessa tölu er hægt að hækka í allt að 20.000 tonn svo framarlega sem gæði íslensks byggs séu viðunandi.

Prótein og fita í fóðri svína

Kornrækt hefur vaxið gríðarlega síðustu 15 ár. Þar kemur einkum þrennt til, í fyrsta lagi hefur tíðarfar orðið hagstæðara, kynbótum hefur fleygt fram og í þriðja lagi hefur þróun verðs á innfluttri kornvöru ýtt undir aukna ræktun. Þrátt fyrir bætt skilyrði eru gæði framleiðslunnar mjög breytileg.

Helstu þættir sem hafa áhrif á efnainnihald byggs eru þroskastig kornsins þegar það er slegið og einnig hafa yrkin nokkur áhrif. Verkun og geymsla hefur líka áhrif á gæði, verðmyndun og hollustu kornsins. Meltingarfæri svína, ef frá eru taldar fyrstu fimm vikurnar hjá grísum ráða vel við bygg. Á fyrstu vikunum miðast framleiðsla meltingarhvata við mjólkurfóðrun. Þar sem aldur grísa við fráfærur hefur farið lækkandi þarf að taka tillit til þroska meltingarfæranna við val á fóðurefnum. Þannig hentar bygg sem er ríkt af sterkju ekki í fóður fyrr en framleiðsla amylasa, hvatans sem brýtur niður sterkju, hefur aukist.

Löng hefð er fyrir því að nota fitu í fóður svína. Á Íslandi hefur lýsi, dýrafita og sojaolía einkum verið notaðar. Fita eykur orkustyrk fóðurs og bætir fóðurnýtingu en getur haft, háð eiginleikum fitunnar, neikvæð áhrif á gæði afurðanna bæði hvað varðar vefjahlutföll, bragð og áferð. Mikið magn fitu „fellur til“ á Íslandi bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Líklegt er að fita í fóðri íslenskra svína sé að minnsta kosti um 140-160 tonn á ári og að mestu leyti innlend framleiðsla. Hægt væri að auka þennan þátt verulega þar sem fitan má vera allt að 5-7% af fóðri svína eða 1500 tonn miðað við núverandi framleiðslu. Svín eru í eðli sínu hraðvaxta dýr og þurfa þess vegna hátt hlutfall próteins í fóðri. Algengt er að próteinhlutfall sé um 17-20%.

Sóknarfæri í íslenskri svínarækt

Sóknarfæri íslenskra svínabænda liggja í því að nýta möguleika til innlendrar fóðuröflunar, tryggja hreinleika við framleiðsluna og hollar afurðir, jafnframt að tryggja velferð dýranna og að aðbúnaður og framleiðsla sé í sátt við umhverfið. Einn liður í því að tryggja öryggi afurða er að koma á upprunamerkingum svínakjöts. Neytendur vilja og eiga rétt á að vita sem mest um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa.

Íslensk svínasláturhús hafa fengið löggildingu Evrópusambandsins. Lítið sem ekkert er því flutt út af svínakjöti og það sem flutt hefur verið út hefur farið á markaði í Asíu og Rússlandi þar sem kröfurnar eru slakari en hjá Evrópusambandinu. Frá og með 1. nóvember árið 2011 áttu öll sláturhús landsins að uppfylla reglur Evrópusambandsins samkvæmt lögum nr. 143/2009.

Talið er að hver gylta ásamt grísum gefi frá sér um 17 tonn af svínaskít á ári og með það í huga koma um 3.400 tonn frá 200 gyltum sem ætla má að geti verið hagkvæm stærð af fjölskyldubúi. Áætla má að til að taka á móti þessum svínaskít þurfi um 200 hektara túns eða um 400 hektara til byggræktar.

Með tilkomu kornræktar á Íslandi og þróun þeirrar framleiðslu bendir fátt til annars en að íslenskir svínabændur geti að verulegu leyti fóðrað dýr sín á innlendu korni og þar sem aðstæður leyfa tekið virkan þátt í kornrækt. Jafnframt má auka notkun á íslenskri fitu og fiskimjöli. Ekki er óeðlilegt að greinin hafi það markmið að yfir 80% fóðursins sé af innlendum uppruna. Þarf vart að fjölyrða um gildi þess en rétt að benda á gjaldeyrissparnað og fóðuröryggi. (Skýrsla starfshóps  um eflingu svínaræktar og innlendrar kjarnfóðurframleiðslu, 2010).

Skipting grísahelmimgs

Áður en skrokkhelmingurinn er tekinn í parta eru lundir fjarlægðar úr læri, eru undir aftanverðum hrygg og fremst á læri. Hliðarvöðvi fylgir með ásamt áfastri fitu.

Afturhluti grísahelmings er aðskilinn frá miðhluta skrokksins með beinum skurði í gegnum hrygg og síðu á milli 6. og 7. spjaldhryggjarliðar þannig að allur mjaðmaspaði fylgir læri.

Fremsti hluti grísahelmings er aðskilinn frá miðhlutanum með beinum skurði þvert á hrygg og síðu á milli 5. og 6. brjósthryggjarliðar þannig að allt herðablaðið fylgir með. Tær skornar frá. Skinn og yfirborðsfita fylgja með.

Grísamiðja skiptist í hrygg og síðu. Afmarkast af skurði samsíða hrygg 3 – 6 cm frá enda hryggvöðva.

 

Skipting gyltuhelmings

Gyltur eru fláðar strax eftir slátrun fyrir kælingu. Að lokinni kælingu er skrokkum skipt í afturstykki, frampart og bringustykki. Gyltum getur verið slátrað á ýmsum aldri og er því mikill breytileiki í þyngd og gerð þeirra. Algengast er þó að þær séu u.þ.b. 150 – 160 kg.

Lundir eru skornar úr afturstykki í heilu lagi.

Huppur ásamt bringustykki, er skorinn með langskurði frá læri ásamt spena og brjóststykki á síðu og bringu á framparti. Því næst er frampartur skorinn frá á milli 5. og 6. rifs.

Frampartur er skorinn frá afturstykki á milli 5. og 6. rifs.

Flýtileiðir

Tell a friend about this page