L N G H F

Hrossakjöt

2018 2019
Framleiðsla á hrossakjöti (t) 939 1085
Hrossakjöt selt innanlands (t) 597 735
Hrossakjöt selt erlendis (t) 330

Saga íslenska hestsins er samofin sögu þjóðarinnar og má rekja hana allt aftur til landnáms á
tíundu öld. Víkingar sem settust að á Íslandi komu með búfénað frá Evrópu og þar á meðal
sín bestu hross af ýmsum uppruna. Þrátt fyrir að upprunalega hafi íslenski hesturinn
verið af blönduðu kyni má segja að í dag sé hann einn hreinræktaðasti hestur í heimi vegna
einangrunar sinnar. Íslenski hesturinn hefur ekki blandast öðrum kynjum í þúsund ár og í
dag er aðeins eitt hestakyn að finna á Íslandi – íslenska hestinn.

Íslenski hesturinn hefur frá upphafi leikið lykilhlutverk í þjóðlífinu. Í heiðni var hann hátt
skrifaður og kom víða fyrir í norrænni goðafræði. Margir norrænu guðanna áttu hesta og
komu þeir víða við sögu. Frægastur var Sleipnir hinn áttfætti gæðingur Óðins. Áhrif hinna
norrænu sagna eru enn mikil í hestamennskunni á Íslandi, enda heita mörg hestamannafélög
í landinu nöfnum úr goðafræðinni sem og fjöldi hesta í landinu. Hesturinn kemur einnig oft
fyrir í Íslendingasögunum enda gegndi hann stóru hlutverki á stríðstímum Víkinga. Víkingar
báru mikla virðingu fyrir hestum sínum og góður hestur var lífsnauðsynlegur stríðsmanni. Oft
voru hestarnir grafnir með vígamönnunum, fullbúnir reiðtygjum. Í aldaraðir var hesturinn eina farartækið á Íslandi og mikilvægasta vinnudýrið og þess vegna hefur hesturinn verið kallaður „þarfasti þjónninn“. Hann fylgdi manninum frá fæðingu til grafar, sótti ljósmóðurina og dró kistuna til kirkju. Þegar fyrsti bíllinn kom til Íslands árið 1940 varð hesturinn fljótt úreltur í fyrri hlutverkum. Hins vegar héldu nokkrir hestaáhugamenn merkjum hans á lofti og næstu ár var aukin áhersla lögð á ræktun íslenska hestsins sem reiðhests. Fyrsta hrossaræktarfélagið á Íslandi var stofnað sama ár og fyrsti bíllinn kom til landsins, en fram að þeim tíma hafði hesturinn aðallega verið ræktaður með styrk og þol í huga, frekar en ganghæfileika eða geðslag.

Um aldir var það almennt viðhorf í íslensku samfélagi að algjört bann væri við því að leggja sér hrossakjöt til munns. Þetta bann var tengt túlkun á Biblíunni, sem fól í sér að einungis mætti borða kjöt af klaufdýrum. Bannið við hrossakjötsáti var fornt en neysla þess var meðal annars notuð til að greina á milli heiðinna manna og kristinna í frumkristni á Norðurlöndum. Í fyrstu íslensku kristnilögunum er hrossakjötsát lagt að jöfnu við barnaútburð og skurðgoðadýrkun. Viðbjóður manna á hrossakjöti var svo mikill að það eitt að handfjatla eða nýta sér hrossaslátur, án þess þó að borða það, var illa séð.

Staða hestsins sem mikilvægs atvinnu- og samgöngutækis hefur að líkindum enn frekar styrkt bannið gegn hrossakjötsátinu. En hér á landi gegndi hesturinn mikilvægu hlutverki bæði við vinnu og flutninga allt fram á 20. öld.

Til marks um það hve strangt forboðið gegn hrossakjötsáti var, má nefna að á 18. öld þegar tíðir harðindakaflar gengu yfir landið, töldu margir kirkjunnar menn að neyð fólks og hungur nægði ekki sem afsökun fyrir neyslu hrossakjöts. Í einum ákafasta harðindakafla 18. aldar, sem stóð yfir á árunum 1754–1758, neyddust sumir landsmenn til að leggja sér hrossakjöt til munns. Í bók sinni Mannfækkun af hallærum tilfærir Hannes Finnsson Skálholtsbiskup dæmi um hrossakjötsát landsmanna, í sömu andrá og hann getur um fjölgun þjófnaða. Þrátt fyrir neyð almennings, var andúðin á hrossakjötsáti það sterk og neysla þess talin svo stór siðferðisbrestur að mörgum prestum landsins stóð ekki á sama. Þeim bar að halda guðsorði og góðum siðum að almenningi og þó neyðin væri mikil var hrossakjötsátið svo alvarlegt afbrot að það var ekki látið óátalið.

Í dag eru um 75 þúsund hross á Íslandi sem er ótrúlega há tala í landi þar sem þjóðin telur rúmlega 300.000 manns.

Íslenskt hrossakjöt þykir mjög sérstakt. Kjötskrokkarnir eru minni, feitari og oft með dekkri gulan lit á fitu og linari fitu en skrokkar sláturhrossa í Evrópu, Suður-Ameríku og Norður-Ameríku. Þetta hefur gert markaðssetningu erlendis erfiða, en er um leið tækifæri til að finna og selja kjötið inn á sérstaka markaði. Fyrir nokkrum árum var mikið af fersku hrossakjöti flutt flugleiðis á Japansmarkað. Sá útflutningur stóð í nokkur ár en lagðist þá af. Það óvenjulega við þann útflutning var að japanir sæktust nær eingöngu eftir afturparti með hrygg, svokallaðri pístólu, af mjög feitum hrossum. Eftir að þeim útflutningi lauk tók annað markaðssvæði við, Ítalía, þeir sæktust hinsvegar eftir hefðbundnari gerð hrossa.
Hrossakjöt er í erlendum heimildum talið hafa mjög gott næringargildi. Það er fitulítið með hátt hlutfall af omega-3 fitusýrum, próteinríkt með mikið magn lífsnauðsynlegra amínósýra og ríkt af járni. Fitan er linari en á öðru kjöti og er mun gjarnari á að þrána. Örfáar mælingar hafa verðir gerðar á íslensku hrossakjöti í tengslum við gerð íslensks næringar efnagrunns á RALA og síðar MATRA. Í folaldakjöti var línólensýra (C18:3n-3) 7,8–16,4% og línolsýra (C18:2n-6) 5,1–7,8% af öllum fitusýrum. Omega-3 fitusýrur í hrossakjöti eru einkum upprunnar í grasi .
Sala á hrossakjöti var um eða undir eitt þúsund tonn á ári á tímabilinu frá 1980 til 2000. Útflutningur var oft nokkur hluti þar af. Til að mynda var útflutningur á hrossakjöti tæplega 50% af heildarsölu ársins 1999.

Þúsundir folalda fæðast ár hvert á Íslandi. Flest þeirra koma í heiminn utandyra við náttúrulegar aðstæður þar sem mæður þeirra ganga í stóði allan ársins hring. Algengast er að stóðhestar séu hafðir í svokölluðum stóðhestagirðingum á sumrin með hryssum sínum. Hesturinn sinnir hverjum hryssuhópi í ákveðinn tíma, en talað er um gangmál í því samhengi. Sæðingar þekkjast þó og hafa þær aukist undanfarin ár þó meirihluti ræktunar á Íslandi fari fram með gamla laginu, ef svo má að orði komast. Það er töfrum líkast að sjá folald koma í heiminn úti í náttúrunni á íslenskri sumarnóttu. Ræktendur fylgjast grannt með hryssum sínum og grannskoða folöldin fyrstu dagana því sagt er að margt megi segja um framtíðar fas og hæfileika með því að skoða hreyfingar og útlit folaldanna strax í byrjun. Reyndir ræktendur geta oft séð hver folaldanna eiga eftir að verða stóðhestar og ræktunarhryssur framtíðarinnar.

Folöldin ganga undir mæðrum sínum fyrstu mánuðina, stundum lengur, en sum eru tekin á
hús sinn fyrsta vetur. Næsta vor er tryppunum svo yfirleitt sleppt í stóð og þar læra þau að
umgangast önnur hross í hópnum og finna sinn stað í virðingarstiganum. Á sumrin gæða þau sér á grænu grasinu, en á veturna þarf að gefa þeim hey og sjá til þess að þau hafi aðgang að skjóli. Hægt er að halda íslenska hesta utandyra allan ársins hring ef vel er hugsað um þá. Hestar sem eru í notkun og reið ættu þó að vera á húsi þann tíma sem kaldara er í veðri. Sumstaðar á Norðurlandi eru hross enn rekin á afrétt á sumrin og haustin. Í september og október er þeim smalað og þau rekin heim í rétt þar sem bændur sækja stóð sín og reka heim á bæ.

Íslenski hesturinn er langlífur og heilsuhraustur og ekki er óeðlilegt fyrir íslenskan hest að ná
25-30 ára aldri, en til eru dæmi um íslensk hross sem hafa orðið jafnvel enn eldri. Á heildina litið er íslenska hrossakynið heilbrigt og frjósamt. Þar sem íslenski hesturinn hefur verið einangraður um þúsund ára skeið er hann laus við alla helstu smitandi hrossasjúkdóma sem herja á hesta í Evrópu og Ameríku.

Íslenskir hestar voru fyrst fluttir úr landi sem vinnuhestar fyrir áratugum síðan. Þeir voru notaðir til starfa á bóndabæjum og í námum, en tugir þúsunda hesta fóru frá Íslandi til vinnu í
kolanámum, mestmegnis á Bretlandseyjum. Upp úr 1950 hófst svo útflutningur reiðhesta og síðan þá hafa vinsældir íslenska hestsins vaxið mjög á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku.

Heimildir:

  • Gunnar Sveinsson: „Rökræður Íslendinga fyrr á öldum um hrossakjötsát.” Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 136. árg. (1962). Ritstjóri Halldór Halldórsson. Reykjavík.

(Íslenski hesturinn, útgefið af Félagi hrossabænda, 2006)

Snyrting hrossaskrokka á Íslandi.

  • Afhausað við fyrsta hryggjarlið.
  • Fætur klipptir af í hnjálið.
  • Flegið þannig að skrokkhimnur haldist sem mest heilar.
  • Engin gormengun, hár eða önnur óhreinindi á skrokkum.
  • Júgur eða eistu eru fjarlægð ásamt fitu þar í kring.  
  • Getnaðarlimur  fjarlægður að rótum aftan við lífbein.
  • Fitumakki fjarlægður.
  • Þind fjarlægð.
  • Nýru fjarlægð ásamt mör og fitukleprum úr grindar-, kviðar- og brjóstholi.
  • Æðar með fitu innaná hrygg eru fjarlægðar.
  • Föst fita á rifjum og á milli rifja látin óhreyfð. 
  • Kirtlar, tægjur og fitukleprar í brjóstholsinngangi eru fjarlægð.
  • Hálsæðar og blóðlifrar í hálsi fjarlægðar.
  • Skrokkur klofinn að endilöngu eftir miðri hryggsúlu.
  • Vöðvar sitt hvoru megin á hryggnum óskertir.
  • Mæna fjarlægð.

Samkvæmt reglugerð nr. 882/2010, 4. gr. skal fjarlægja huppa og síður (pístóluskurður) af öllu hrossakjöti fyrir innvigtun nema sérstaklega sé samið um annars konar skiptingu í fjórðunga .

Fyrirmæli Matvælastofnunar um pístóluskurð á 00M-640 folalda- og trippaskrokkum eru þannig:

  • A: Frampartur skal skorinn þvert á milli 8. og 9. rifs.
  • B: Huppur og síða skulu skorin frá án þess að skera í lærvöðva og í gegnum rif 15-17 cm frá miðlínu hryggjar utanvert, þ.e. pístóla.

Sömu reglu er fylgt varðandi pístóluskurð á fullorðnum hrossum. En við útflutning á hrossakjöti er framparturinn skorinn frá milli 4. og 5. rifs. 00M-641

Tell a friend about this page