L N G H F

Fuglakjöt

Framleiðsla af kjúklingum 1. og 2. flokk (ekki meðtaldir kalkúnar og holdahænur)

2018 2019
Kjötframleiðsla (t)
Sala af innanl. framl. (t)
Innflutningur (t)
9483
9606
9606
9589
9797

Holdakjúklingabú í landinu eru eftirfarandi;

Fjögur stofnbú.
Fjórar útungunarstöðvar, þar af ein útungunarstöð sameiginleg fyrir útungun á kjúklingum, kalkúnum og varphænum.
82 eldishús á 27 búum, með pláss fyrir 720.000 fugla.

Talið er fullvíst að íslensku landnámsmennirnir hafi haft með sér fugla til búskapar og afurðir þeirra fugla hafi verið nokkur þáttur í afkomu þeirra. Með öðrum orðum að fuglabúskapur hafi verið stundaður í einhverjum mæli á Íslandi alla tíð.

Allt fram á 20. öld kunnu Íslendingar lítið fyrir sér í fuglarækt, fuglar fáir og afurðir litlar. Smám saman fjölgaði hænsnum, mest á Suðvesturlandi og leiðbeiningar í búnaðarritum urðu til þess að bæta nokkuð úr kunnáttuleysi eggjaframleiðenda. Hænsnum fjölgaði frá aldamótum til 1930 úr liðlega 5 þúsund í 44.436. Búin í landinu voru öll lítil til loka þriðja áratugarins, flest með 10-100 fugla og þau stærstu með allt að 500 fugla. Neysla á hænsnakjöti var mjög lítil og verðmæti afurða alifuglaræktar innan við eitt prósent af verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í landinu.

Eggja- og kjötframleiðsla

Með árunum fjölgaði í hænsnastofninum og auk eggjanna varð fuglakjötið sífellt algengara á borðum landsmanna. Eggjabændur stofnuðu með sér landssamband árið 1949 og var hugmyndin sú að sambandið tæki að sér mestan hluta sölunnar í landinu. Þessi samtök voru lögð niður árið 1954 og Samband eggjaframleiðenda stofnað í staðinn. Framleiðsluráð landbúnaðarins veitti sambandinu einkasöluleyfi sem reyndist þó ekki haldbært og hætti sambandið árið 1961. Fór þá hver framleiðandi að selja fyrir sig. Á sjöunda áratugnum hófst ræktun holdakjúklinga í fyrsta sinn að einhverju marki og kjötið varð brátt eftirsótt á borðum landsmanna.

Flutt er inn frjóegg bæði hana- og hænulínu og notaður er stofninn Ross 308. Hænur og hanar sem koma úr innfluttu eggjunum eru hafðir í sóttkví en eru síðan fluttir í stofnbú þar sem þeir verða foreldrafuglar fyrir eldisfuglinn. Á síðustu áratugum 20. aldar greindist alifuglarækt í tvennt, hænsnarækt til eggjaframleiðslu og ræktun holdakjúklinga til kjötframleiðslu. Sumir framleiðendur starfa við báðar greinarnar. Eggjabændum fækkaði mikið og í aldarlok voru félagar í Félagi eggjaframleiðenda aðeins 17 og enn hefur þeim fækkað í upphafi 21. aldar. Árið 1991 sameinuðust Félag eggjaframleiðenda og Félag kjúklingabænda um rekstur einangrunar- og útungunarstöðvar á Hvanneyri.

Sjúkdómar í alifuglum

Alifuglum fylgja sjúkdómar eins og öðrum dýrategundum og með aukinni ræktun jókst hættan á smitsjúkdómum. Við framleiðslu á kjúklingum fór að bera á erfiðari sjúkdómum eins og salmonellu og síðar campylobacter. Sérstakur dýralæknir alifuglasjúkdóma var fyrst ráðinn árið 1973. Stofnfugl er fluttur inn að meðaltali átta sinnum á ári. Árið 2010 voru flutt inn um það bil 179.000 egg og úr þeim fást um 58.000 fuglar (hænur).

Alifuglar bera flesta salmonellusýkla í meltingarfærum án þess að sýkjast, einungis skæðar sermisgerðir geta valdið sjúkdóm í alifuglum. Campylobacter veldur aldrei sýkingum í alifuglum og eru þeir undartekningarlaust einkennislausir smitberar.

Síðan 1993 hefur verið fylgst með tíðni salmonellu í kjúklingahópum. Í dag eru tekin sýni úr hverjum fuglahópi í eldi með því að taka svokölluð sokkasýni fyrir slátrun. Ef sýnið er jákvætt, er ekki leyfilegt að senda hópinn til slátrunar og er honum fargað á búinu, óháð sermisgerð. Þetta eru mjög strangar reglur sem finnast ekki annarstaðar í Evrópu og sennilega víðar.

Einnig eru tekin salmonellusýni úr öllum sláturhópum, óháð fuglategund. Finnist salmonella í því sýni, verður kjötið innkallað og hitameðhöndlað fyrir frekari dreifingu.

Síðan 2008 hefur einnig verið fylgst með salmonellu í stofnfuglum, þar sem salmonella getur borist í gegnum frjóeggin í ungana. Hingað til hefur ekki fundist salmonella í stofnfuglahópi.

Einnig er tilgreint í reglugerð og í nýju salmonelluprógrammi Matvælastofnunar, sem tók gildi árið 2008, að taka skuli reglulega sýni úr varphænsnahópum. Vegna skorts á þvingunarúrræðum hafa þessi sýni varla verið tekin og er eftirliti með neyslueggjaframleiðslu ábótavant. Árið 2010 greindist salmonella í einum varphænsnahópi í opinberu sýni.

Átaksverkefni dregur úr sýkingum

Fylgst er með campylobacter í kjúklingum með því að taka saursýni úr hverjum hópi mest fimm dögum áður en hann er sendur til slátrunar. Finnist campylobacter í því sýni þarf að frysta allar afurðir úr viðkomandi hópi. Með frystingu er hægt að drepa campylobactersýklana að mestu leyti og eru þess vegna uppþýddar afurðir lítt eða ekki mengaðar. Íslendingar eru vanir innkaupum á frystum kjötafurðum og er því auðvelt að nýta þessar afurðir án áhættu.

Einnig eru tekin sýni úr hópum við slátrun. Finnist campylobacter í þeim, þarf að frysta þær afurðir úr viðkomandi hópi, sem ekki er búið að dreifa. Hins vegar þarf ekki að innkalla afurðir.

Tekist hefur að lækka verulega campylobacter í afurðum frá árinu 2000. Gripið var til aðgerða vegna faraldurs í mönnum sem kom upp eftir að leyft var að selja ferskt kjúklingakjöt árið 1996. Aðgerðir til að lækka tíðni campylobacter í kjúklingum voru meðal annars betri smitvarnir, aukið hreinlæti á búum (við umgengni, við tínslu til slátrunar, geislameðhöndlun á drykkjarvatni), fuglum er slátrað yngri en áður og frysting afurða er úr jákvæðum eldihópum.

Þessi árangur er að þakka átaksverkefni sem bar heitið „Campy on Ice“ og stóð yfir 2001 og 2004. Að því stóðu kanadískir og bandarískir vísindamenn og íslenskir kjúklingabændur í samstarfi við íslensk yfirvöld. Einnig var unnið með sérfræðingum á hinum Norðurlöndunum.

Í gangi er verkefni erlendra og innlendra aðila sem hefur það markmið að draga úr flugum í eldishúsum, þar sem fyrir liggja niðurstöður sem sýna að flugur bera með sér mikið magn af campylobacter (flugnanetsverkefnið).

Með öguðum og skipulögðum vinnubrögðum í samstarfi við ofangreinda aðila hefur náðst mjög góður árangur á Íslandi í baráttunni gegn campylobacter. Vert er að vekja athygli á því að víða erlendis er horft til þessa árangurs á Íslandi, sem er þegar orðinn fyrirmynd annarra þjóða í ráðstöfunum þeirra gegn campylobacter í kjúklingum.

Nýir og auknir möguleikar

Breytt staða íslensks samfélags eftir efnahagshrunið 2008 gerði það að verkum að þjóðin fór að horfa til allra átta við sparnað á gjaldeyri. Þar koma til sögunnar nýir og auknir möguleikar á fóðurframleiðslu ásamt betri nýtingu áburðar. Nauðsynlegt er að rannsaka hvernig auka má hlutdeild innlendrar fóðurframleiðslu í fóðurnotkun við kjúklinga- og eggjaframleiðslu. Eldið þarf að taka mið af fæðuöryggi þjóðarinnar og hollustu afurðanna auk þeirra áhrifa sem búgreinin getur haft á sitt nær samfélag. Mikil óvissa ríkir um framtíð kjúklinga- og eggjaframleiðslu á Íslandi ef gengið verður í Evrópusambandið. Einkum er horft til sjúkdóma og ljóst að ýmsum af þeim vörnum sem greinin býr við í dag gagnvart innflutningi verður erfitt að viðhalda ef til aðildar kemur. Tryggt þarf að vera að ætíð sé einungis flutt inn fóður af þeim gæðum sem nauðsynleg eru ef framleiðslan á að vera örugg hvað varðar til dæmis smit af salmonellu.

Heimildir

Alifuglinn – Saga alifuglaræktar á Íslandi frá landnámi til okkar daga: Friðrik G. Olgeirsson: Útg. Félag eggjaframleiðenda, Reykjavík 2003.

Skýrsla um eflingu alifuglaræktunar á Íslandi. Starfshópur á vegum Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytisins, Apríl 2011.

Senda slóð til vinar